29. október 2014

Safnahelgi á Suðurlandi um helgina

Hér má sjá dagskrá Safnahelgar

Opnunarhátíð sjöundu Safnahelgarinnar verður fimmtudaginn 30. október í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn með stuttu málþingi, Safnið mitt – safnið þitt. Þar  munu þau Sigurjón Baldur Hafsteinsson dósent í safnafræði við Háskóla Íslands, Þorsteinn Hjartarson fræðslufulltrúi Árborgar og Alma Dís Kristinsdóttir safnafræðingur flytja erindi um safna- og samfélagsmál. Einnig verða í hraðfréttastíl kynnt áhugaverð verkefni í barna- og fræðslustarfi nokkurra safna frá sitthvorum enda Suðurlands, Hornafirði og Þorlákshöfn. Opnunarhátíð er öllum opin og hefst kl. 16:00. Í boði verða spennandi erindi, léttar veitingar og tónlistarflutningur.

Safnið mitt – safnið þitt –  nánar um málþingið hér

Í kjölfarið verða viðburðir,  um allt Suðurland fram til sunnudagsins 2. nóvember.

Samtök safna á Suðurlandi vona að sem flestir njóti þess sem er í boði.

 

safnahelgi2014_A4

27. október 2014

Safnahelgin 30. okt. – 2. nóv.

Fyrstu helgina í nóvember stendur sunnlendingum og gestum þeirra margt til boða á svæðinu frá Selvogi í vestri til Hornafjarðar í austri, upp til sveita, niður að sjó og í Vestmannaeyjum en þá verður í sjöunda skipti efnt til Safnahelgar á Suðurlandi. Ýmislegt forvitnilegt verður í gangi í hinum fjölbreyttu söfnum (bókasöfn, listasöfn, minjasöfn og skjalasöfn), setrum og á sýningum. Það eru Samtök safna á Suðurlandi sem standa fyrir viðburðinum en hvatinn að stofnun þeirra var löngun til þess að efla og styrkja safnastarf á Suðurlandi, gera það sýnilegt, setja í samhengi og efna til víðtæks samstarfs.

Með málþinginu Safnið mitt – safnið þitt á opnunarhátíð safnahelgarinnar verður leitast við að draga fram hversu fjölbreytt starfsemi safna getur verið en söfnin og sýningar þeirra mætti nýta mun meira bæði í fræðslustarfi og sem spennandi valkost þegar kemur að því að velja afþreyingu hjá upptekinni þjóð, þar sem tíminn er eitt það dýrmætasta sem hver á. Safnaheimsókn býður upp á óformlegan námsvettvang þar sem safngesturinn ræður för og með því að ganga inn í heim sýninga gefst tækifæri til þess að spyrja sig spurninga og finna svör en skynjunin er einstaklingsbundin og fjölþætt.

Opnunarhátíðin verður fimmtudaginn 30. október í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn og á stutta málþinginu munu þau Sigurjón Baldur Hafsteinsson dósent í safnafræði við Háskóla Íslands, Þorsteinn Hjartarson fræðslufulltrúi Árborgar og Alma Dís Kristinsdóttir safnafræðingur flytja erindi um safna- og samfélagsmál. Einnig verða í hraðfréttastíl kynnt áhugaverð verkefni í barna- og fræðslustarfi nokkurra safna.

Allir eru velkomnir á opnunarhátíðina sem hefst klukkan 16:00. Í boði verða spennandi erindi, léttar veitingar og tónlistarflutningur. Í kjölfarið verða viðburðir um allt Suðurland fram til sunnudagsins 2. nóvember. Hægt verður að skoða dagskrána á www.sudurland.is og á www.facebook.com eða fá upplýsingar í næsta safni eða setri.
Samtök safna á Suðurlandi vona að sem flestir njóti þess sem er í boði.

Safnahelgi 2014 – plakat

 

24. október 2014

Safnahelgin í Vestmannaeyjum 30. okt. til 2. nóv.

Tónlist, myndlist, upplestur – sem og barna og unglingadagskrá.
Stórtónleikar í ELDHEIMUM. Jóhann Sigurðarson leikari og söngvari ásamt Pálma Sigurhjartarsyni píanóleikara, myndlistarsýning Gíslinu Daggar Bjarkadóttur bæjarlistamann í safnahúsi. Bókaupplestur, sögustund og ratleikir fyrir börn í Sagnheimum og margt fleira.

Á Safnahelginni í ár er lögð sérstök áherslu á dagskrá fyrir og með börnum og unglingum.
Dagskráin byrjar strax á fimmtudeginum með opnun myndlistarsýningar Myndlistarfélags Vestmannaeyja í Alþýðuhúsinu. Sýningin er tileinkuð minningu Ása í Bæ. Um kvöldið er svo dagskrá í Eldheimum. Jóhann Sigurðarson syngur lög úr söngleikjum við undirleik Pálma Sigurhjartarsonar píanóleikara. Dagskráin hefst með framkomu gítarsveitar Tónlistarskóla Vestmannaeyja undir stjórn Eyvindar Inga Steinarssonar. Formleg opnun Safnahelgarinnar verður að vanda í Stafkirkjunni á föstudeginum.
Fjölbreytt dagskrá verður á laugardeginum í safnahúsinu. Illugi Jökulsson les úr knattspyrnubók sinni. Gísli Pálsson og Kristín Marja Baldursdóttir lesa út nýjum verkum sínum. Bæjarlistamaður Vestmannaeyja Gíslina Dögg Bjarkadóttir sýnir í framhaldinu skyssur sýnar sem eru kynning á stærri sýningu tileinkaðri bók Krostínar Marju „Karítas an titils“. Í Sagnheimum verð kynntar niðurstöður jarðskjálftarannsókna í Herjólfsdal. Um kvöldið leikur hið eina sanna húsband á Vinaminni.
Dagskránni lýkur á sunnudeginum í Sagnheimum með sögustund, ratleikjum og teiknimyndasamkeppni.

VestmannaeyjarBátasafb_Eyjar1

15. október 2014

Rangárþing eystra- góður viðkomustaður á Safnahelgi á Suðurlandi

Safnahelgi á Suðurlandi hefur fest sig í sessi á síðustu árum sem nokkurskonar yfirlitssýning á öllu því frábæra starfi sem fram fer í söfnum, setrum, vinnustofum og öðrum tengdum geirum á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Í ár verður safnahelgin 31. október til 2. nóvember og að venju ætti enginn að verða svikin af þeim uppákomum og viðburðum sem í boði verða.

Sveitarfélagið Rangárþing eystra er hér engin undantekning. Það ætti ekki að hafa farið framhjá nokkrum manni og þá sérstaklega ekki Sunnlendingum að verið er að sauma í Njálurefil í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Saumað hefur verið af miklu kappi síðan 2. febrúar 2013 og nú þegar hafa klárast 30 metrar af 90. Á safnahelginni gefst frábært tækifæri til að koma og setja spor sitt bókstaflega í söguna en þá verður haldin hátíðleg Saumahelgin mikla. Það verður saumað frá klukkan 10:00 á laugardagsmorgni og eins lengi frameftir og fólk vill og á sunnudagsmorguninn hefst saumaskapurinn aftur klukkan 10:00 og saumað verður til 17:00.

Það þarf þó enginn að örvænta ef öll sæti eru upptekin við Njálurefilinn því að Sögusetrið hefur upp á margt fleira að bjóða. Njálusýningu, Kaupfélagssýningu og síðast en ekki síst málverkasýninguna List í Héraði í Gallerý Ormi. List í héraði sýningin samanstendur af 10 áhugalistamönnum úr Rangárvallasýslu sem koma hér saman og sýna verk sín, gömul og ný. Þetta er í fimmta sinn sem sýningin List í héraði er sett upp en í fyrsta sinn sem sýnt er í gallerí Ormi. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Suðurlands og Rangárþingi eystra. Safnahelgin á Suðurlandi er síðasta sýningarhelgin og því ekki seinna vænna en bregða sér af bæ og heimsækja Sögusetrið á safnahelgi.

Á meðan sest er niður og saumað eða Sögusetrið skoðað þá berast ljúfir tónar um húsnæðið þar sem boði verður upp á tónlistaratriði úr héraði, bæði sunnudag og laugardag.

Í Rangárþingi eystra má einnig finna byggðasafnið á Skógum sem er eitt það stærsta sinnar tegundar á Íslandi og heimsókn á Skógasafnið er mikil upplifun fyrir alla, unga sem aldna. Gestastofan á Þorvaldseyri er líka opin alla helgina.

Ég býð ykkur hjartanlega velkomin í Rangárþing eystra á Safnahelgi á Suðurlandi og vona að þið njótið þess sem boðið er upp á.

rangarthingeystra_map

15. október 2014

Orgelið „rokkar“

Tónleikar í Skálholtsdómkirkju miðvikudagskvöldið 22. október kl.20:30.
Fjölskyldutónleikar þar sem þekkt tónlist úr kvikmyndum s.s. Starwars, Pirates of the Caribbean, Indiana Jones, með hljómsveitum eins og Queen, Abba ýmislegt fleira sem allir ættu að þekkja.
Organisti er Jón Bjarnason og Smári Þorsteinsson spilar á trommur.
Tónleikarnir eru liður í tónleikaröð á suðurlandi sem hlaut styrk frá Menningarráði Suðurlands og héraðssjóði suður prófastsdæmis.
Tónleikar verða í 5 kirkjum. Hafnarkirkju, Hveragerðiskirkju, Selfosskirkju, Skálholtsdómkirkju og Þorlákskirkju og fara allir fram í október.
Að morgni tónleikadags gefst krökkum úr grunnskólum nágrennis kirkjunnar kostur á því að hlusta á stutta tónleika og kynningu á hljóðfærinu.

orgel