15. október 2014

Rangárþing eystra- góður viðkomustaður á Safnahelgi á Suðurlandi

Safnahelgi á Suðurlandi hefur fest sig í sessi á síðustu árum sem nokkurskonar yfirlitssýning á öllu því frábæra starfi sem fram fer í söfnum, setrum, vinnustofum og öðrum tengdum geirum á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Í ár verður safnahelgin 31. október til 2. nóvember og að venju ætti enginn að verða svikin af þeim uppákomum og viðburðum sem í boði verða.

Sveitarfélagið Rangárþing eystra er hér engin undantekning. Það ætti ekki að hafa farið framhjá nokkrum manni og þá sérstaklega ekki Sunnlendingum að verið er að sauma í Njálurefil í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Saumað hefur verið af miklu kappi síðan 2. febrúar 2013 og nú þegar hafa klárast 30 metrar af 90. Á safnahelginni gefst frábært tækifæri til að koma og setja spor sitt bókstaflega í söguna en þá verður haldin hátíðleg Saumahelgin mikla. Það verður saumað frá klukkan 10:00 á laugardagsmorgni og eins lengi frameftir og fólk vill og á sunnudagsmorguninn hefst saumaskapurinn aftur klukkan 10:00 og saumað verður til 17:00.

Það þarf þó enginn að örvænta ef öll sæti eru upptekin við Njálurefilinn því að Sögusetrið hefur upp á margt fleira að bjóða. Njálusýningu, Kaupfélagssýningu og síðast en ekki síst málverkasýninguna List í Héraði í Gallerý Ormi. List í héraði sýningin samanstendur af 10 áhugalistamönnum úr Rangárvallasýslu sem koma hér saman og sýna verk sín, gömul og ný. Þetta er í fimmta sinn sem sýningin List í héraði er sett upp en í fyrsta sinn sem sýnt er í gallerí Ormi. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Suðurlands og Rangárþingi eystra. Safnahelgin á Suðurlandi er síðasta sýningarhelgin og því ekki seinna vænna en bregða sér af bæ og heimsækja Sögusetrið á safnahelgi.

Á meðan sest er niður og saumað eða Sögusetrið skoðað þá berast ljúfir tónar um húsnæðið þar sem boði verður upp á tónlistaratriði úr héraði, bæði sunnudag og laugardag.

Í Rangárþingi eystra má einnig finna byggðasafnið á Skógum sem er eitt það stærsta sinnar tegundar á Íslandi og heimsókn á Skógasafnið er mikil upplifun fyrir alla, unga sem aldna. Gestastofan á Þorvaldseyri er líka opin alla helgina.

Ég býð ykkur hjartanlega velkomin í Rangárþing eystra á Safnahelgi á Suðurlandi og vona að þið njótið þess sem boðið er upp á.

rangarthingeystra_map

15. október 2014

Orgelið „rokkar“

Tónleikar í Skálholtsdómkirkju miðvikudagskvöldið 22. október kl.20:30.
Fjölskyldutónleikar þar sem þekkt tónlist úr kvikmyndum s.s. Starwars, Pirates of the Caribbean, Indiana Jones, með hljómsveitum eins og Queen, Abba ýmislegt fleira sem allir ættu að þekkja.
Organisti er Jón Bjarnason og Smári Þorsteinsson spilar á trommur.
Tónleikarnir eru liður í tónleikaröð á suðurlandi sem hlaut styrk frá Menningarráði Suðurlands og héraðssjóði suður prófastsdæmis.
Tónleikar verða í 5 kirkjum. Hafnarkirkju, Hveragerðiskirkju, Selfosskirkju, Skálholtsdómkirkju og Þorlákskirkju og fara allir fram í október.
Að morgni tónleikadags gefst krökkum úr grunnskólum nágrennis kirkjunnar kostur á því að hlusta á stutta tónleika og kynningu á hljóðfærinu.

orgel

14. október 2014

Safnahelgi á Suðurlandi 2014 og uppskeruhátíð í Skaftárhreppi

Uppskeru- og þakkarhátíð Skaftárhrepps er að venju haldin um Safnahelgina á Suðurlandi, dagana 30. október – 2. nóvember nk. Margt verður í boði í Skaftárhreppi þessa daga. Matarveislur, menningarviðburðir, fyrirtæki, stofnanir og bændur bjóða gestum í heimsókn og kynna starfsemi sína. Uppskeruhátíðin hefst fimmtudagskvöldið 30. október kl. 20:00 í Félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri. Þar flytur Eva Björk Harðardóttir oddviti ávarp og setur hátíðina. Kirkjukórarnir í Skaftárhreppi flytja nokkur lög og nemendur Kirkjubæjarskóla sýna leikverk undir stjórn Ólafar Sverrisdóttur leikkonu.

Föstudaginn 31. október hefst dagskráin kl.10:00 og eru mennta- og menningarstofnanir á Kirkjubæjarklaustri í sviðsljósinu. Kirkjubæjarskóli, Héraðsbókasafnið, Íþróttamiðstöðin og Skaftárstofa bjóða gesti velkomna og kynna starfsemina. Anna Gyða Gunnlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmyndari opnar sýningu á ljósmyndum af gömlum heimarafstöðvunum í Skaftárhreppi í Gömlu stöðinni við Systrafoss og á Kirkjubæjarstofu þar sem heitt verður á könnunni. Handverkssláturhúsið í Seglbúðum verður formlega opnað og deginum lýkur á Systrakaffi þar sem trúbador skemmtir gestum.

Laugardaginn og sunnudaginn 1.- 2. nóv. verður áherslan á sveitunum Álftaveri og Skaftártungu. Þar verður í gangi fuglahræðusamkeppni við bæina í sveitunum sem gestir geta skoðað yfir helgina. Vegleg verðlaun verða í boði fyrir frumlegustu fuglahræðuna.

Dagskrá laugardagsins hefst kl. 10.00 í Álftaverinu þar sem Þykkjabæjarklausturskirkja verður opin og munu kirkjumálarnir Snorri Guðvarðarson og Kristjana Agnarsdóttir taka á móti gestum og segja frá endurbótum á kirkjunni í máli og myndum. Nonna- og Brynjuhús á Þykkvabæjarklaustri verður opið og boðið er uppá hrúta- og feldfjárskoðun í fjárhúsinu og hægt verður að sjá nýfædda kálfa í fjósi.

Á Borgarfelli í Skaftártungu verður opið hús og grillvagn Félags sauðfjárbænda verður á staðnum.. Björgunarsveitin Stjarnan verður með opið hús og dagskránni í Skaftártungu lýkur um kl. 16:30 með tónleikum í Grafarkirkju.

Gamla stöðin á Klaustri, mynd 1 - Copy Gamla stöðin á Klaustri mynd 2 - Copy

3. október 2014

Regnboginn í Vík 10. – 12. október

Dagskrá Regnbogans – List í fögru umhverfi 2014, sem haldin verður í Vík í Mýrdal  helgina 10. – 12. október er nú tilbúin. Aðstandendur hátíðarinnar vonast til að sjá sem flesta í Vík þessa daga enda verður  boðið upp á fjölbreytta dagskrá þar sem allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Regnbogabæklingurinn_2014

3. október 2014

Menningarráð fundaði í Vestmannaeyjum

Menningarráð Suðurlands hélt fund í Vestmannaeyjum sl. sunnudag, 28. september. Tilgangur ferðarinnar var einnig  að skoða menningarlandslag í Vestmannaeyjum og kynnast ýmsum verkefnum betur sem Menningarráðið hefur styrkt í gegnum árin.

Heimsóttir voru Eldheimar og skoðuð glæsileg sýning um Vestmannaeyjagosið. Sýningin hefur þegar náð að draga fjölda ferðamanna til Vestmannaeyjar.

Einnig var farið í keimsókn í Kviku, húsnæði leikfélags Vestmannaeyja, og Sæheima – náttúrugripasafn eyjamanna.

VE IMG_3588 VE IMG_3610 VE IMG_3613 VE IMG_3621