30. mars 2015

Íslenskt leikverk „Enginn með Steindóri“

Á haustdögum 2014 var leitað til F. Ella Hafliðasonar (Don ellione) um að leikstýra verkefni vetrarins hjá Leikfélagi Ölfuss. Til stóð að setja upp frumsamið verk, Einn rjúkandi kaffibolla eftir einn meðlim félagsins, Aðalstein Jóhannsson en ekki fékkst nægilegur fjöldi leikara til að manna þá sýningu svo það varð að hugsa dæmið upp á nýtt. Stjórn félagsins lagðist undir feld og valdi nýtt verk sem ber heitið Enginn með Steindóri og er eftir Nínu Björk Jónsdóttur. Æfingar fóru af stað 17. september 2014 og var verkið frumsýnt 25. október. Í sýningunni léku 9 leikarar og komu þeir víða að, frá Þorlákshöfn, Selfossi, Hveragerði og Reykjavík. Leikstjórinn Don ellione skilaði sínu vel og gekk samstarfið eins og best verður á kosið. Fjölmargir aðrir komu að uppsetningunni, leikmyndasmiðir, sminka, ljósamaður, auglýsingafulltrúi og fleira. Leikfélag Ölfuss hefur verið starfandi frá haustinu 2005 og á einmitt 10 ára afmæli nú í haust. Á þessum tíma hefur félagið sett upp 10 sýningar í fullri lengd auk þess sem það hefur staðið fyrir ýmsum minni viðburðum, námskeiðum og fleiru. Án styrktaraðila eins og Menningarráðs Suðurlands væri erfitt að halda starfseminni gangandi og er ákaflega mikilvægt að hafa aðgang að slíku þegar vinna á að verkefnum sem styrkja menningarflóru héraðsins.

21. janúar 2015

Vegna styrkja til menningar-og nýsköpunarverkefna 2015

Samningur Samtaka  sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og ríkisins um menningarmál hefur ekki verið gerður fyrir árið 2015. Verið er að vinna að nýjum samningum milli ríkis og sambanda sveitarfélaga á landsvísu. Talsverðar breytingar eru fyrirhugaðar en ætlunin er að sameina í einn samning menningarsamninga, vaxtarsamninga og samninga um sóknaráætlun. Þar með verður væntanlega til nýr sjóður sem úthlutað verður úr bæði til menningarverkefna og nýsköpunar. Unnið er með ríkinu að gerð nýs samnings og ætla má að hægt verði að auglýsa á fyrstu mánuðum þessa árs.

Nánari upplýsingar veitir Dorothee Lubecki, menningarfulltrúi Suðurlands í síma 480-8207 eða menning@sudurland.is

 

12. janúar 2015

Bókabæirnir austanfjalls boða til fundar 17. janúar

Bókabæirnir austanfjalls boða til fundar þann 17. janúar næstkomandi, fundurinn verður haldinn í gamla frystihúsinu á Eyrarbakka og hefst kl. 13:00

Bókabæirnir voru stofnaðir í september 2014 og eru samstarf þriggja sveitafélaga Árborgar, Hveragerðisbæjar og Ölfuss. Viðtökur hafa verið afar jákvæðar og góðar og nokkrir viðburðir hafa þegar verið haldnir í nafni Bókabæjanna. Ný heimasíða leit dagsins ljós í janúar,

www. bokabaeir.is. Netfang bókabæjanna  er bokaustanfjalls@gmail.com fyrir fólk sem vill senda okkur tillögur og efni.

Hugmyndin er að Bókabæirnir austanfjalls verði vettvangur fyrir okkur öll sem búum á þessu svæði til að gera samfélagið okkar meðvitaðra um þann fjársjóð sem við búum yfir en nýtum lítið sem ekkert, sem er bókmenntaarfurinn okkar. Stefnt er að því að draga fram í dagsljósið sögurnar, rithöfundana, prentsöguna og hæfileika okkar allra til að vinna eitthvað skemmtilegt úr þessu okkur öllum til gagns og gleði.

Á fundinum sem verður haldinn í gamla frystihúsinu á Eyrarbakka verður farið yfir stöðuna og hvað er framundan, stofnaðir vinnuhópar um verkefni eins og kortlagningu á bókmenntaarfinum, vinnu að menningardagskrá og kynnt hugmynd að prentsögusetri og fleira. Rætt hefur verið um að halda barnabókahátíð á árinu þar sem Ármann Kr. Einarsson hefði orðið 100 ára á þessu ári og Jón Oddur og Jón Bjarni eiga fertugsafmæli. Einnig hefur komið fram hugmynd um að halda bókamarkað og stofna hóp sjálfboðaliða til að lesa upp fyrir fólk. Ferðir til bókabæja erlendis og á bókahátíðir hafa verið ræddar og ýmislegt fleira. Enn er þó nóg af plássi fyrir nýjar og ferskar hugmyndir. Því fleiri sem leggja hönd á plóg þeim mun léttara og skemmtilegra verður þetta.

Hlökkum til að sjá ykkur.

Bókabæjahópurinn.

12. janúar 2015

Opnað fyrir umsóknir um Eyrarrósina

Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem staðið hafa saman að verðlaununum frá upphafi árið 2005. Umsækjendur um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð.   Valnefnd, skipuð fulltrúum Byggðastofnunar, Listahátíðar í Reykjavík og Flugfélags Íslands ásamt einum menningarfulltrúa á starfssvæði Byggðastofnunar; tilnefnir þrjú verkefni og hlýtur eitt þeirra Eyrarrósina,  1.650.000 krónur og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Aðrir tilnefndir hljóta 300.000 krónur auk flugferða. Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar, afhendir verðlaunin.

Handhafar Eyrarrósarinnar frá upphafi:

·  Þjóðlagahátíðin á Siglufirði (2005)

·  LungA, Listahátíð ungs fólks á Austurlandi (2006)

·  Stranda­galdur á Hólmavík (2007)

·  Rokkhátíð alþýðunnar; Aldrei fór ég suður (2008)

·  Landnámssetur Íslands (2009)

·  Bræðslan á Borgarfirði eystra (2010)

·  Sumartónleikar í Skálholtskirkju (2011)

·  Safnasafnið á Svalbarðsströnd (2012)

·  Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi (2013)

· Áhöfn­in á Húna (2014)

Nánari upplýsingar fyrir umsækjendur er að finna hér    http://www.listahatid.is/eyrarrosin/

 

 

29. október 2014

Safnahelgi á Suðurlandi um helgina

Hér má sjá dagskrá Safnahelgar

Opnunarhátíð sjöundu Safnahelgarinnar verður fimmtudaginn 30. október í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn með stuttu málþingi, Safnið mitt – safnið þitt. Þar  munu þau Sigurjón Baldur Hafsteinsson dósent í safnafræði við Háskóla Íslands, Þorsteinn Hjartarson fræðslufulltrúi Árborgar og Alma Dís Kristinsdóttir safnafræðingur flytja erindi um safna- og samfélagsmál. Einnig verða í hraðfréttastíl kynnt áhugaverð verkefni í barna- og fræðslustarfi nokkurra safna frá sitthvorum enda Suðurlands, Hornafirði og Þorlákshöfn. Opnunarhátíð er öllum opin og hefst kl. 16:00. Í boði verða spennandi erindi, léttar veitingar og tónlistarflutningur.

Safnið mitt – safnið þitt –  nánar um málþingið hér

Í kjölfarið verða viðburðir,  um allt Suðurland fram til sunnudagsins 2. nóvember.

Samtök safna á Suðurlandi vona að sem flestir njóti þess sem er í boði.

 

safnahelgi2014_A4